Allt fé skorið niður á Hurðarbaki

Riða hefur greinst í einni kind á bænum Hurðarbaki í Flóahreppi og verður allt fé á bænum skorið niður í ágúst.

„Nú förum við í að safna faraldsfræðiupplýsingum um mögulegar smitleiðir og skoðum fé á næstu bæjum. Síðan verður féð skorið niður en það eru um 150 fullorðnar kindur á bænum,“ sagði Katrín Andrésdóttir, héraðsdýralæknir, í samtali við sunnlenska.is.

Grunur vaknaði vegna sjúkdómseinkenna í kindinni og voru sýni send á Tilraunastöðina að Keldum þar sem greining riðu var staðfest.

„Reynir Jónsson, bóndi, sá kindina þegar menn voru að undirbúa að reka á fjall og fannst hún grunsamleg. Hann er mjög glöggur á þetta og hefur áður fundið riðuveika kind inni á afrétti. Það er mikilvægt að bændur þekki þessi einkenni og að sama skapi er hann samviskusamur að láta vita,“ segir Katrín ennfremur.

Riða kom síðast upp í Flóahreppi fyrir fjórum árum, þá á tveimur bæjum.

Fyrri greinEkki verkfall á Suðurlandi
Næsta greinVökufólk gekk á gosstöðvarnar