Fólk vantar til starfa í Hrunamannahreppi og allt húsnæði sem losnar selst fljótlega eftir að það kemur á markaðinn.
Þetta segir Jón Valgeirsson, sveitarstjóri, í samtali við Sunnlenska. Hann segir skort á iðnaðarmönnum og að unnið sé á fullu alla daga, en verk dragist engu að síður.
„Já, það er satt, menn hafa vart undan,“ segir Jón. Hann bætir við að atvinnuástand í hreppnum hafi alla jafna verið nokkuð gott.
Nú sé einnig skortur á íbúðarhúsnæði og á Flúðum seljist allar fasteignir fljótt. „Það er ákveðinn uppgangur, enda vinnu að hafa,“ segir hann.
Nú er verið að reisa húsnæði hjá Límtrésverksmiðjunni sem hýsa á steinullarlínu og hefur fyrirtækið verið að auglýsa eftir fólki til starfa.