Slæmt veður og mikil ofankoma urðu til þess að loka þurfti vegum á Suðurlandi um jólin. Í frétt á vef Vegagerðarinnar segir að þar á bæ hafi allt kapp verið lagt á að veita eins góða þjónustu og mögulegt er með tilliti til veðurs.
Öll tiltæk tæki hafa verið notuð undanfarna daga til snjómoksturs og starfsfólk Vegagerðarinnar og verktakar á hennar vegum unnið frá morgni til kvölds alla hátíðardagana.
„Markmið Vegagerðarinnar er að halda vegum opnum eins og kostur er en loka ef öryggi fólks er ekki tryggt og til að koma í veg fyrir slys. Ef lokað er of seint eykur það hættu á að bílar festist og lengri tíma tekur að opna að nýju. Vegagerðin hefur skilning á þörfum ferðaþjónustunnar og mun strax á nýju ári funda með Samtökum ferðaþjónustunnar til að fara yfir hvaða leiðir eru færar til að auka þjónustu við þessa mikilvægu atvinnugrein,“ segir í frétt Vegagerðarinnar.
Krefjandi aðstæður á Suðurlandi
Aðstæður á Suðurlandi voru krefjandi um jólin vegna slæms veðurs og mikillar ofankomu. Sjaldan hefur verið jafn mikið fannfergi í Vík. Færð á vegum var fljót að spillast þótt unnið væri að snjómokstri öll jólin. Frá jóladegi voru um tólf tæki nýtt til að ryðja snjó í nágrenni Víkur.
Tæki voru lánuð á milli svæða til að flýta fyrir mokstri, auk þess sem aukatæki voru fengin til verks; snjóblásarar, vegheflar og gröfur. Vegna mikillar snjókomu var fljótt að safnast í skafla sem urðu á köflum yfir 4 metrar og tekur tíma að moka þeim í burtu.