Félag eldri borgara á Selfossi segir biðtíma eftir lækni alltof langan og krefur Heilbrigðisstofunun Suðurlands um úrbætur. Þá kallar félagið einnig eftir fleiri hjúkrunarrýmum.
Þetta er meðal annars það sem kemur fram í ályktunum aðalfundar félagsins sem haldinn var þann 25. febrúar sl.
Í áskorun til heilbrigðisráðherra er varðar fjölgun hjúkrunarrýma skv. áætlun um byggingu nýs hjúkrunarheimilis segir að af þeim 50 rýmum sem byggja á, séu 35 sem eigi að leysa af hólmi eldri rými og því séu nýju rýmin aðeins 15.
„Þetta finnst okkur eldri borgurum á Selfossi algerlega óásættanlegt,“ segir í ályktuninni. Og áfram segir: „Það ríkir ófremdarástand í Árnessýslu allri og tugir sjúkra eldri borgara bíða nú eftir vist á hjúkrunarheimili. Að ætla að bjóða 15 ný hjúkrunarrými fyrir fjöldann sem bíður gengur ekki upp, það er til skammar miðað við brýna þörf og nauðsyn. Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 25. febrúar, skorar á stjórnvöld að áætluðu rýmin 50 verði viðbót við það sem fyrir er.“
Krefja HSU úrbóta
Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi vekur einnig athygli á því að bið eftir tíma hjá heimilislækni er alltof löng (allt að heilum mánuði). Fundurinn krefst þess að framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sjái til þess að bætt verði úr þessu hið bráðasta.
Í ályktun sinni til til sveitarstjórnar Árborgar skorar félagið á bæjaryfirvöld að leysa sem fyrst úr langvarandi húsnæðisvanda félagsins vegna þrengsla í Grænumörk 5 og setur félagsstarfi miklar skorður. Sömuleiðis eru bílastæði við Grænumörk löngu sprungin og þarf að bæta þar úr.