Nytjamarkaðurinn sem rekinn er af Hvítasunnukirkjunni á Selfossi opnaði í síðustu viku í nýju og stærra húsnæði við Eyraveg 5 á Selfossi, beint á móti Hótel Selfoss.
Aron Örn Hinriksson, forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar, segir að þegar markaðurinn hafi misst fyrra húsnæði hafi verið farið í að leita að stærra húsnæði. „Nýja staðsetningin gerir það að verkum að það er auðveldara að reka markaðinn og öll yfirsýn verður einfaldari og aðgengið er þægilegra. Það verður líka einfaldara að taka á móti sendingum auk þess að við getum tekið á móti fleiri húsgögnum,” segir Aron.
Allur ágóði af markaðnum rennur í góð málefni hér heima og erlendis. „Ágóðinn rennur í nokkur málefni en stærst eru úthlutanir á inneignakortum í lágvöruverslunum til þeirra sem hafa lítið á milli handanna og stuðningur við ABC barnaþorp,“ segir Aron. Alls hefur Nytjamarkaðurinn gefið um 12 milljónir til góðgerðarmála.
Hjá Nytjamarkaðinum starfar einn markaðsstjóri auk þess sem fjöldi sjálfboðaliða kemur að markaðnum sem gefur mismikið af tíma sínum.
Aron segir að fólk komi með dót á Nytjamarkaðinn af margvíslegum ástæðum. „Sumir koma til okkar eftir að hafa verið að taka til í geymslunum hjá sér, aðrir eru að endurnýja hjá sér eða að minnka við sig húsnæði. Í raun má segja að flest af því sem fólki dettur í hug hefur komið hingað inn til okkar.“