Þær miklu framkvæmdir sem unnar hafa verið á síðustu mánuðum og misserum við Suðurlandsveg 1-3 á Hellu eru ekki inn á núgildandi deiliskipulagi.
Málið upplýstist á síðasta fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra þar sem kom í ljós að í gildi er deiliskipulag frá 1993. Öllum framkvæmdum á svæðinu hefur verið frestað þar til nýtt deiliskipulag öðlast gildi.
Að sögn Gunnsteins Ómarssonar sveitarstjóra þarf að fara ofan í allt ferlið en miðað er við ákveðnar deiliskipulagshugmyndir út frá þeim framkvæmdum sem unnar hafa verið. Byggt hefur verið stórhýsi á lóðinni, settur upp hlaðinn veggur, plön malbikuð og umferðarstefnu breytt svo eitthvað sé nefnt.
Nú er nauðsynlegt að semja við eignaraðila vegna lóðaframkvæmda en ætlunin er að gera tillögu að deiliskipulagi fyrir miðbæinn í heild sinni. Fyrir utan sveitarfélagið og aðra aðila í stjórnsýsluhúsinu eru Olís og Gistihúsið Mosfell stórir eignaraðilar að lóðum á þessu svæði.