Allt til reiðu í Vallaskóla komi til rýmingar

Vallaskóli á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Komi til rýmingar í Grindavík vegna eldgoss á Reykjanesi verður opnuð fjöldahjálparstöð í Vallaskóla á Selfossi.

„Við gerum að sjálfsögðu allt sem við getum til að aðstoða nágranna okkar í Grindavík. Vonandi kemur ekki til þess að það þurfi að rýma en ef það gerist þá verðum við tilbúin og búum yfir mikilli reynslu og þekkingu hér á svæðinu eftir Suðurlandsskjálftana. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að þetta gangi vel fyrir sig,“ segir Fjóla Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar en hún er formaður Almannavarnanefndar Árnessýslu.

Björgunarsveitarfólk, starfsfólk Rauða krossins og sveitarfélagsins eru í viðbragðsstöðu ef almannavarnir verða virkjaðar hér á svæðinu.

„Það fer auðvitað eftir því á hvaða skala þetta verður. Það mun ekki taka okkur langan tíma að opna fjöldahjálparstöðina og ef aðrar flóttaleiðir út úr Grindavík eru opnar þá eru einnig fjöldahjálparstöðvar í Reykjanesbæ og Kópavogi,“ segir Fjóla og bætir við að ekki sé ljóst hvort að þetta muni hafa áhrif á starfsemi Vallaskóla.

„Það er erfitt að segja nokkuð um það núna. Við erum aðallega að horfa á notkun á íþróttahúsinu en þetta fer auðvitað allt eftir umfangi rýmingarinnar, ef það kemur til hennar á annað borð,“ segir Fjóla að lokum.

Vallaskóli á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinFélagsmiðstöðin Zelsíuz hlaut Íslensku menntaverðlaunin
Næsta greinKrefjast íbúafundar vegna íþróttaaðstöðu bæjarins