Mikill viðbúnaður var vegna reyks sem kom upp á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri um klukkan sex á fimmtudagsmorgun í síðustu viku.
Slökkvilið og aðrar bjargir voru ræstar út og hafist var handa við að rýma þá álmu heimilisins sem reykurinn var í. Enginn eldur var sjáanlegur.
Við nánari skoðun kom í ljós að rafmagnsofn undir glugga var stilltur á yfir 30°C og í gluggakistu var kerti sem hafði bráðnað við hitann og vaxið lekið niður á ofninn og af því varð talsverður reykur.
Öll viðbrögð og aðgerðir á staðnum gengu fumlaust fyrir sig. Engum varð meint af og ekkert tjón að heitið gæti.