Almars bakaríi á Selfossi verður lokað um næstu mánaðamót þar sem bakaríið missir húsnæði sitt og ekkert annað hentugt húsnæði á Selfossi hefur fundist.
„Leigusalarnir voru ekki tilbúnir að halda þessu samstarfi áfram því þeim fannst bakaríið ekki nógu flott. Það missa sex manns vinnuna en vonandi getum við tekið einhverja yfir í bakaríið okkar í Hveragerði,“ segir Almar Þór Þorgeirsson í samtali við Vísi.
Bakaríið á Selfossi er í Kjarnanum við Austurveg 1-3, sem einnig hýsir Krónuna og fleiri fyrirtæki. Almar rekur einnig bakarí við Sunnumörk í Hveragerði.
„Við viljum endilega vera áfram á Selfossi en höfum ekki fundið neitt hentugt húsnæði. Húsið sem við leigjum í dag er um 220 fermetrar og erum við að borga um 414 þúsund í leigu á mánuði,“ bætir Almar við.