Hópslysaáætlun hefur verið virkjuð vegna alvarlegs rútuslyss sem varð á Rangárvallavegi, skammt frá Stokkalæk, rétt fyrir klukkan 17 í dag.
Þar valt rúta með 26 farþega innanborðs, auk ökumanns. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi kl. 18:15 segir að björgunarstarf standi enn yfir og unnið sé að því að flytja slasaða af vettvangi.
Mikill viðbúnaður er á vettvangi en allt tiltækt sjúkralið hefur verið kallað út ásamt slökkviliðsmönnum frá Brunavörnum Rangárvallasýslu, björgunarsveitum víða af Suðurlandi og tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar. Samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð hefur verið virkjuð vegna slyssins.
Rangárvallavegur er lokaður austan Gunnarsholts og við gatnamótin hjá Djúpadal.
Tildrög slyssins liggja ekki fyrir en lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.
Fréttin verður uppfærð