Þjóðvegi 1 hefur verið lokað við Kirkjubæjarklaustur eftir alvarlegt rútuslys sem varð um sex kílómetra vestan við Klaustur klukkan 11:03 í morgun. Á milli 40 og 50 manns voru í rútunni og er ljóst að einhverjir eru alvarlega slasaðir og margir með minniháttar áverka.
Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi kemur fram að vinna á vettvangi muni taka töluverða stund. Viðbragðsaðilar á Suðurlandi hafa allir verið kallaðir til auk tveggja þyrla Landhelgisgæslunnar.
Farþegar rútunnar eru erlendir ferðamenn.
Hópslysaáætlun í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi hefur verið virkjuð en aðgerðarstjórn er í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi og að auki hefur samhæfingastöðin í Skógarhlíð í Reykjavík verið virkjuð.
Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð á Kirkjubæjarklaustri og Landspítalinn hefur verið settur á aukið viðbragð og sjúkrastofnanir víða um land eru í viðbragðsstöðu.
Þjóðvegi hefur verið lokað við Kirkjubæjarklaustur og verður á meðan unnið er að björgun á vettvangi. Búast má við straumi sjúkrabíla og annarra viðbragðsaðila og eru vegfarendur beðnir um að sýna tillitsemi og þolinmæði á meðan.
Unnið er að því að koma á hjáleið um Meðallandsveg F204. Vegurinn er að hluta til frumstæður, einbreiður malarvegur og biður Vegagerðin fólk því að fara með sérstakri gát.
UPPFÆRT KL. 12:23