Rétt fyrir klukkan 13:00 í dag var kallað eftir aðstoð í Sundhöll Selfoss þar sem drengur á sjötta aldursári fannst meðvitundarlaus í innilaug sundhallarinnar.
Endurlífgun hófst þegar, bæði af hálfu aðstandenda drengsins, starfsmanna sundhallarinnar, og sundlaugargesta þar sem voru meðal annars lögreglu-, sjúkraflutninga-, og slökkviliðsmenn.
Drengurinn var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. Lögreglubifreið og lögreglubifhjól veittu sjúkrabifreiðinni sérstakan forgang auk þess sem umferðarljósum var stýrt svo hægt væri að flytja drenginn hratt og örugglega á spítalann.
Samkvæmt tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér nú á fimmta tímanum liggja ekki fyrir upplýsingar um líðan drengsins.