Alvarlegt umferðarslys á Biskupstungnabraut

Tveir voru fluttir alvarlega slasaðir á sjúkrahús eftir umferðarslys á Biskupstungnabraut, austan við Tannastaði undir Ingólfsfjalli, um klukkan hálf níu í kvöld.

Fólksbíll fór útaf veginum og valt en glerhálka er á vettvangi. Sex manns voru um borð í bílnum. Fjórir voru fluttir á sjúkrahúsið á Selfossi og eru meiðsli þeirra minniháttar. Tveir voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík, annar þeirra með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þeir eru báðir alvarlega slasaðir.

Fjölmennt sjúkralið, ásamt lögreglu frá Selfossi og Hvolsvelli og tækjabílum frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi og Hveragerði var kallað á vettvang.

Vegurinn verður lokaður frameftir kvöldi á meðan lögregla vinnur á vettvangi.

UPPFÆRT KL. 22:03

UPPFÆRT KL. 23:40: Biskupstungnabraut hefur nú verið opnuð fyrir umferð.

Fyrri greinDonna og Summer í Selfoss
Næsta greinHamar leit vel út á heimavelli