Einn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík eftir alvarlegt umferðarslys á Hrunavegi við Flúðir í morgun.
Þar lentu tveir bílar í árekstri en útkallið barst kl. 9:05 í morgun. Mikill viðbúnaður var vegna slyssins en ásamt lögreglu og sjúkraflutningamönnum var vettvangshópur Björgunarfélagsins Eyvindar kallaður út, sem og tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu.
Þyrlan lenti með þann slasaða við Landspítalann um klukkan 10:40.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi var einn í hvorum bíl og er ekki hægt að segja til um ástand þeirra að svo stöddu. Rannsókn stendur yfir á vettvangi.