Miðbar, nýr og glæsilegur bar í miðbæ Selfoss, verður opnaður á morgun í Friðriksgáfu samkomuhúsi.
„Hér verður skemmtiprógram fyrir unga sem aldna en við hugsum þetta frekar fyrir yngra fólk, 20-35 ára, á meðan Risið í Mjólkurbúinu er hugsað fyrir 35+. Þetta er sportbar og hérna verður veislusalur fyrir einkasamkvæmi, góður bar, trúbadorar og karaoke, þannig að þetta verður alvöru samkomuhús í hjarta bæjarins,“ sagði Þórir Jóhannsson, stærsti eigandi og guðfaðir Friðriksgáfu samkomuhúss í samtali við sunnlenska.is.
Miðbar er á tveimur hæðum en á neðstu hæðinni í sama húsi er stefnt að því að opna tónleikastaðinn Sviðið í ágústmánuði.
„Miðbar verður opinn flesta daga og svo verður þetta bara eins og í Inghól í gamla daga, þegar það er orðið mikið niðri þá opnum við upp. Síðan getum við verið með tónleika á neðstu hæðinni á Sviðinu og þegar þeir eru búnir þá opnar upp – eða þess vegna Stuðmannaball á Sviðinu og opið á öllum hæðum. Þannig að þetta hús býður upp á skemmtilega möguleika og við getum verið hérna með viðburði fyrir bæði 500 manns og 50 manns. Friðriksgáfa samkomuhús er regnhlífin utan um allt húsið, núna erum við að opna Miðbar og svo Sviðið seinna í sumar,“ sagði Þórir að lokum.