Ánægja með nýtt veiðihús

Mikil ánægja er meðal veiðimanna og annarra með nýtt og glæsilegt veiðihús Veiðifélags Ytri-Rangár að sögn Ara Árnasonar, formanns félagsins.

Húsið var byggt seinni part vetrar og er að fullu tilbúið að innan og nánast fullklárað að utan. Kemur það í stað veiðihússins sem var í gömlu íbúðarhúsi að Rangá, sem byggð hafði verið við stofa. Var það húsnæði orðið alltof þröngt að sögn Ara.

„Það bjargaði því að veiðin er alltaf góð og því kvörtuðu menn lítið,“ sagði Ari við Sunnlenska.

Nýja húsið er 246 fermetrar að stærð og snýr stór gluggi út að ánni með útsýni yfir Rangárflúðirnar, sem telst til skemmtilegri veiðistaða á landinu.

„Menn taka þessu ákaflega vel og hér er allt til alls,“ segir Ari en rúmur matsalur er í húsinu auk annarrar aðstöðu sem prýða þarf gott veiðihús.

Húsið er sem fyrr segir í eigu veiðifélagsins en Lax-á hefur staðinn á leigu og sér þar um þjónustu við veiðimenn. Staðarhaldari er Hildur Bruun. Ari segir húsið hafa verið reist fyrir veiðimennina, koma verði í ljós hvort það verði nýtt með einhverjum hætti yfir vetrartímann eftir að veiði lýkur í lok október.

Fyrri greinSpennandi starfsár framundan
Næsta greinNýstárleg fjáröflun Garps