Nú stefnir í að næsta haust muni fjölga um fimm börn í Heilsuleikskólanum Kærabæ á Kirkjubæjarklaustri. Skólastjórnendur hafa kallað eftir stærra húsnæði til að mæta fjölguninni.
Málið var rætt á síðasta sveitarstjórnarfundi og oddvita ásamt skólastjórum grunnskóla og leikskóla falið að koma með tillögu að lausn málsins.
Heilsuleikskólinn Kæribær er einnar deildar leikskóli og í dag eru þar þrettán börn. Nú stefnir í að þau verði öll í leikskólanum næsta vetur auk fimm nýrra barna sem fædd eru árið 2012.
Þórunn Júlíusdóttir, leikskólastjóri, segir að þar af leiðandi verði mjög þröngt um starfsemi leikskólans og því sé mikilvægt að fundið verði húsnæði sem hentar stækkandi starfsemi.
„Ungum börnum fylgja gjarnan vagnar sem taka sitt pláss. Það er ein helsta ástæða þess að við köllum eftir viðbótarhúsnæði ásamt því að búið verði betur að starfsfólki og þeirri miklu umönnun sem á sér stað í vinnu með svo ungum börnum,“ sagði Þórunn í samtali við sunnlenska.is.
„Ég vil alls ekki orða það þannig að við höfum áhyggjur af fjölgun barna hér á bæ. Þvert á móti fögnum við því að það stefni í að óvenju mörg ung börn hefji leikskólagöngu sína á þessu ári,“ bætir leikskólastjórinn við.
Að sögn Þórunnar er nú verið að skoða að bæta við einni stofu við leikskólann sem mun þá rúma fataherbergi, salerni og vagnageymslu.