Eggert Haukdal, fyrrverandi alþingismaður og oddviti, andaðist á Landspítalanum miðvikudaginn 2. mars sl. Hann var á 83. aldursári þegar hann lést.
Eggert fæddist í Flatey á Breiðafirði 26. apríl 1933. Hann var sonur hjónanna séra Sigurðar S. Haukdal, prófasts í Flatey og síðar að Bergþórshvoli í Landeyjum, og konu hans Benediktu Eggertsdóttur Haukdal.
Eggert ólst upp í Flatey og síðar á Bergþórshvoli. Hann lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1953. Eggert varð bóndi á Bergþórshvoli 1955 og bjó í félagsbúi með foreldrum sínum til 1973.
Eggert var mikill félagsmálamaður. Hann var m.a. í stjórn Héraðssambandsins Skarphéðins 1961-1972. Formaður Búnaðarfélags Vestur-Landeyja 1970-1993. Hann sat um tíma í fulltrúaráði Brunabótafélags Íslands. Eggert var formaður Sjálfstæðisfélags Rangæinga 1970-1978 og í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi frá 1959. Hann sat í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps og varð oddviti hennar árið 1970. Þá var Eggert sýslunefndarmaður 1974-1988 og sat í héraðsnefnd frá 1988. Hann átti sæti í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1980-1985, þar af formaður 1980-1983 og sat í stjórn Byggðastofnunar 1985-1987. Einnig sat Eggert í stjórn Þríhyrnings 1988-1991 og í stjórn Hafnar-Þríhyrnings hf. frá 1991. Hann átti og sæti í stjórn Fóðurblöndunnar hf. um tíma.
Eggert var alþingismaður Suðurlands 1978-1995. Hann sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn en var utan flokka 1979-1980. Eggert var meðal annars formaður atvinnumálanefndar Alþingis um tíma.
Sambýliskona Eggerts til 30 ára var Guðrún Bogadóttir. Dóttir Eggerts er Magnúsína Ósk og sonur hennar er Eyþór Lárusson.