Guðni Christian Andreasen, bakarameistari á Selfossi, lést á heimili sínu fimmtudaginn 21. september síðastliðinn, 67 ára að aldri.
Guðni fæddist 18. mars 1950 á Selfossi, sonur hjónanna Helge Malling Andreasen, mjólkurfræðings sem kom frá Damörku til að starfa við Mjólkurbú Flóamanna, og Aðalheiðar Guðrúnar Guðnadóttur húsmóður á Selfossi.
Guðni lærði bakaraiðn við Brauðgerð KÁ. Þá fluttist hann til Danmerkur þar sem hann starfaði við bakstur. Þann 1. júlí 1972 stofnaði hann Guðnabakarí á Selfossi og rak það síðan.
Guðni var einnig virkur í ýmsum félagsmálum í gegnum tíðina. Hann var formaður Landssambands bakarameistara í 10 ár ásamt því að vera virkur í landsambandinu frá stofnun Guðnabakarís. Hann var meðlimur í Flugklúbbi Selfoss í fjölda ára. Guðni starfaði um langt skeið í Lionsklúbbi Selfoss, sinnti þar stjórnarstörfum ásamt því að vera Melvin Jones félagi.
Eftirlifandi eiginkona Guðna er Björg Óskarsdóttir. Börn hans eru þrjú og afabörnin eru átta.