Andlát: Þorfinnur Guðnason

Þorfinnur Guðnason, kvikmyndagerðarmaður frá Vatnsleysu í Biskupstungum er látinn, 55 ára að aldri.

Þorfinnur var einn helsti heimildamyndasmiður Íslendinga og á að baki fjölda slíkra verka.

Hann útskrifaðist 1987 frá California College of Arts and Crafts þar sem hann lagði stund á nám kvikmyndagerð. Í framhaldi af því hóf hann störf hjá Sjónvarpinu þar sem hann starfaði um árabil sem myndatökumaður, klippari og dagskrárgerðarmaður.

Um miðbik tíunda áratugsins sneri hann sér að gerð heimildamynda en meðal mynda hans eru Hagamús: með lífið í lúkunum, Lalli Johns og Draumalandið sem hann gerði í samvinnu við Andra Snæ Magnason. Þorfinnur hlaut fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir myndir stínar, bæði hérlendis og erlendis.

Nýjasta mynd hans var frumsýnd í desember síðastliðnum en það er myndin Vikingo, sem fjallar um ævintýri Jóns Inga Gíslasonar, bardagahanaræktanda í Dóminíska lýðveldinu.

Fyrri greinAndlát: Einar Øder Magnússon
Næsta greinPluto er týndur