Brynleifur H. Steingrímsson, fyrrverandi yfirlæknir og forseti bæjarstjórnar á Selfossi, lést á Landakotsspítala að kvöldi 24. apríl á 89. aldursári. Brynleifur fæddist 14. september 1929 á Blönduósi.
Foreldrar hans voru hjónin Steingrímur Davíðsson, skólastjóri og vegaverkstjóri á Blönduósi, og Helga Dýrleif Jónsdóttir húsfreyja.
Brynleifur ólst upp á Blönduósi og vann öll sín unglingsár við vegavinnu. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1950, embættisprófi í læknisfræði frá HÍ 1956, stundaði framhaldsnám í Svíþjóð 1958-68, nám við University of Bristol á Englandi 1972- 73 og við Óslóarháskóla vorið 1973. Þá dvaldi hann við nám við Lasarettet í Lundi, lyflæknisdeild, 1988-89, stundaði námskeið í heilbrigðis- og réttarlækningum við Folkhälsan Karolinska Institutet í Stokkhólmi 1965 og í hjarta- og æðasjúkdómum við Centrallasarettet í Linköping 1968.
Brynleifur var héraðslæknir í Kirkjubæjarhéraði 1957-58, læknir í Svíþjóð 1958-68, héraðslæknir í Selfosshéraði 1969-82, sérfræðingur í lyflækningum við Sjúkrahús Suðurlands frá 1983, síðan yfirlæknir lyfjadeildar þar og auk þess starfandi yfirlæknir við Vinnuhælið á Litla-Hrauni 1969-87. Þá var hann læknir við Heilsugæslustöðina í Reykjanesbæ í þrjú ár eftir að hann hætti störfum fyrir aldurs sakir á Selfossi.
Brynleifur var hreppsnefndarmaður á Selfossi 1974-78 og bæjarfulltrúi á Selfossi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1986-90, sat í bæjarráði og var forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs um skeið. Hann lét þjóðmál til sín taka og skrifaði fjölda blaðagreina.
Brynleifur unni ljóðlist og gaf út ljóðabók sína, Í ljósi dags árið 1993. Myndskreytti Guðmundar Bjarnason læknir bókina.
Fyrri kona Brynleifs var Þorbjörg Sigríður Friðriksdóttir. Hún lést árið 1975. Börn þeirra: Guðrún Helga, Helga, Friðrik (d. 1990) og Brynja Blanda. Seinni kona Brynleifs var Hulda Guðbjörnsdóttir. Þau skildu. Sonur þeirra er Steingrímur.