Einar Pálmar Elíasson, byggingameistari og iðnrekandi á Selfossi, lést síðastliðinn mánudag, 86 ára að aldri. Einar fæddist í Vestmannaeyjum 20. júlí 1935, sonur hjónanna Guðfinnu Einarsdóttur og Þórðar Elíasar Sigfússonar verkalýðsleiðtoga.
Einar vann ýmis störf í Vestmannaeyjum á yngri árum og um tvítugsaldurinn nokkur sumur við endurbyggingu Héraðsskólans að Laugarvatni. Hann settist að á Selfossi árið 1959 og hóf þá nám í húsasmíði hjá Kaupfélagi Árnesinga.
Einar varð meðal helstu frumkvöðla í atvinnulífi og flugmálum á Selfossi. Hann hóf eigin byggingastarfsemi árið 1964 og byggði tugi íbúðarhúsa á Selfossi og þar í kring á næstu árum. Stofnaði árið 1968 fyrirtækið Steypuiðjuna og var rekstur þess á sínum tíma nokkuð umfangsmikill. Áratug síðar stofnaði Einar fyrirtækið Set. Í dag stýra synir hans rekstri Sets sem er meðal helstu og stærri iðnfyrirtækja landsins, framleiðandi á foreinangruðum fjarvarmarörum og slíkum vörum.
Árið 1973 hóf Einar flugnám hjá Flugskóla Helga Jónssonar í Reykjavík og varð frumkvöðull að stofnun Flugklúbbs Selfoss og gerð Selfossflugvallar árið 1974. Einar hélt einkaflugmannsréttindum sínum fram á síðari ár og fór á einkaflugvél sinni vítt og breitt um landið. Þá var Einar mikill áhugamaður um byggingar og skipulagsmál og setti um tíma mark sitt á þá umræðu á Selfossi. Einnig var hann virkur félagi í Rótarýklúbbi Selfoss.
Einar vann á síðustu tveimur áratugum að því að koma upp safni muna sem meðal annars tengjast flugsögunni, ekki síst starfsemi herflugvallarins sem Bretar starfræktu í Kaldaðarnesi í Flóa í seinni heimsstyrjöldinni.
Fyrrverandi eiginkona Einars er Sigríður Bergsteinsdóttir frá Laugarvatni. Þau Einar og Sigríður eignuðust fjögur börn, þau Bergstein, Guðfinnu Elínu sem er látin, Örn og Sigrúnu. Afkomendurnir eru þrjátíu alls.