Filippus Hannesson, bóndi á Núpsstað, lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri á Hvítasunnudag, á 101 aldursári.
Filippus fæddist á Núpsstað 2. desember 1909, sonur Hannesar Jónssonar, landpósts og bónda, og Þórönnu Þórarinsdóttur, húsfreyju. Hannesi og Þórönnu varð tíu barna auðið og eru fjögur þeirra enn á lífi; Ágústa, Jóna, Jón og Margrét. Meðalaldur systkinanna er hár en elst þeirra er Margrét sem er nú næst elst Íslendinga og verður 106 ára þann 15. júlí nk. Filippus var ógiftur og barnlaus.
Hann tók við búinu á Núpsstað á sjöunda áratug síðustu aldar ásamt Eyjólfi bróður sínum sem lést árið 2004. Filippus bjó á Núpsstað allt þar til í vetur að hann flutti á Klausturhóla á Kirkjubæjarklaustri. Þá lauk samfelldri búsetu Núpsstaðarættarinnar á Núpsstað, eða allt frá árinu 1720 þegar Jón Bjarnason hóf þar búskap.
Útför Filippusar verður gerð frá Bænhúsinu á Núpsstað föstudaginn 4. júní nk.