Kjartan Halldórsson, oft kenndur við Sægreifann, lést á Borgarspítalanum síðastliðinn sunnudag, 75 ára að aldri.
Kjartan fæddist árið 1939 á bænum Syðri-Steinsmýri í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hans voru Halldór Davíðsson og Halldóra Eyjólfsdóttir. Kjartan var sjötti í röðinni af átta systkinum.
Kjartan hafði alla tíð yndi af veiðimennsku. Hann starfaði lengst af við sjómennsku eða frá sextán ára aldri fram til ársins 2002, síðast á Erlingi KE, yfirleitt sem kokkur. Hann var þó einnig sjálfstætt starfandi verktaki við húsaviðgerðir á árunum 1974-1990. Kjartan stofnaði fiskbúðina Sægreifann árið 2003. Ferðamenn fóru að venja komur sínar til hans í búðina í leit að góðum fiski og fljótlega hófu þeir að biðja Kjartan um að elda fyrir sig fiskinn. Hann beið ekki boðanna, keypti grill og hófst handa. Sægreifinn varð þannig fljótlega að vinsælum veitingastað og var þekktur víða um lönd. Kjartan seldi Sægreifann árið 2011 til Elísabetar Jean Skúladóttur en hélt áfram störfum svo lengi sem heilsan leyfði. Síðustu ár bjó hann einnig á Sægreifanum.
Kjartan kvæntist tvisvar, fyrri kona hans var Soffía Sigurgeirsdóttir og áttu þau soninn Jóhann Sævar Kjartansson. Síðar kvæntist hann Sigríði Elísdóttur og átti með henni synina Halldór Pál og Elís Má Kjartanssyni. Barnabörnin átti hann níu talsins.