Andlát: Kjartan Halldórsson

Kjart­an Hall­dórs­son, oft kennd­ur við Sæ­greif­ann, lést á Borg­ar­spít­al­an­um síðastliðinn sunnu­dag, 75 ára að aldri.

Kjart­an fædd­ist árið 1939 á bæn­um Syðri-Steins­mýri í Vest­ur-Skafta­fells­sýslu. For­eldr­ar hans voru Hall­dór Davíðsson og Hall­dóra Eyj­ólfs­dótt­ir. Kjart­an var sjötti í röðinni af átta systkin­um.

Kjart­an hafði alla tíð yndi af veiðimennsku. Hann starfaði lengst af við sjó­mennsku eða frá sex­tán ára aldri fram til árs­ins 2002, síðast á Erl­ingi KE, yf­ir­leitt sem kokk­ur. Hann var þó einnig sjálf­stætt starf­andi verktaki við húsaviðgerðir á ár­un­um 1974-1990. Kjart­an stofnaði fisk­búðina Sæ­greif­ann árið 2003. Ferðamenn fóru að venja kom­ur sín­ar til hans í búðina í leit að góðum fiski og fljót­lega hófu þeir að biðja Kjart­an um að elda fyr­ir sig fisk­inn. Hann beið ekki boðanna, keypti grill og hófst handa. Sæ­greif­inn varð þannig fljót­lega að vin­sæl­um veit­ingastað og var þekkt­ur víða um lönd. Kjart­an seldi Sæ­greif­ann árið 2011 til Elísa­bet­ar Jean Skúla­dótt­ur en hélt áfram störf­um svo lengi sem heils­an leyfði. Síðustu ár bjó hann einnig á Sæ­greif­an­um.

Kjart­an kvænt­ist tvisvar, fyrri kona hans var Soffía Sig­ur­geirs­dótt­ir og áttu þau son­inn Jó­hann Sæv­ar Kjart­ans­son. Síðar kvænt­ist hann Sig­ríði Elís­dótt­ur og átti með henni syn­ina Hall­dór Pál og Elís Má Kjart­ans­syni. Barna­börn­in átti hann níu tals­ins.

Fyrri greinMagnús og Fannar eru „Feðgar á ferð“
Næsta greinFrítt lag frá Jónasi Sig: Af ávöxtunum skulið þið þekkja þá