Óskar Sigurjónsson, fyrrverandi sérleyfishafi, lést miðvikudaginn 10. október sl. á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 87 ára að aldri.
Óskar fæddist 16. ágúst 1925 á Torfastöðum í Fljótshlíð, sonur Ólinu Sigurðardóttur, húsfreyju og bónda og Sigurjóns Jónssonar bónda.
Óskar vann að mestu leyti hjá Kaupfélagi Rangæinga við akstur, rafmagn og viðgerðir frá 1950 til 1960. Óskar tók við sérleyfinu Múlakot-Reykjavík af Kaupfélagi Rangæinga 15. júni 1960.
Tveimur árum síðar kemur bróðir hans Sveinbjörn inn í reksturinn. Þann 1. apríl 1963 ganga Helgi Ingvarsson og Steinþór Jóhannsson inn í reksturinn og verður Austurleið þá til með sérleyfi frá Fossi á Síðu. Nokkrum árum síðar tók Óskar alfarið yfir reksturinn ásamt eiginkonu og börnum. Með opnun Skeiðarárbrúar árið 1974 lengdist sérleyfið til Hafnar í Hornafirði og síðar áfram til Egilsstaða yfir sumartímann. Austurleið hf. sameinaðist síðar Sérleyfisbílum Selfoss og í framhaldi af því Kynnisferðum.
Óskar kaupir lítið þjónustuhús vorið 1966 og flytur í Húsadal í Þórsmörk. Árið 1981 fékk Óskar leyfi til að staðsetja skála í mynni Húsadals utan skógræktargirðingar. Með árunum fjölgaði skálunum og í dag er þar gistiaðstaða fyrir 140 manns ásamt stóru þjónustuhúsi.
Óskar lagði mikla áherslu á að rækta upp gróðurlausa mela í mynni Húsadals og hefur það skilað miklum árangri.
Óskar sat í ýmsum nefndum og ráðum varðandi fólksflutninga og samgöngumál og lagði sitt af mörkum til að efla og bæta þau mál.
Óskar hafði alla tíð mikinn áhuga á flugi og flugsamgöngum. Sextugur settist hann á skólabekk og lauk einkaflugmannsprófi og keypti sér tveggja manna flugvél,TF-AVA.
Eftirlifandi eiginkona Óskars er Sigríður Halldórsdóttir. Þau eiga 8 börn, 26 barnabörn og 29 barnabarnabörn.
Útför Óskars fer fram frá Stórólfshvolskirkju á Hvolsvelli laugardaginn 20. okt. og hefst athöfnin kl. 14.