Pétur Sveinbjarnarson, fyrrverandi formaður Sólheima ses. í Grímsnesi, lést aðfararnótt Þorláksmessu, 74 ára að aldri.
Pétur átti að baki langan feril á sviði viðskipta, opinberra starfa og félagsmála. Hann var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins í átatugi og gegndi m.a. stöðu formanns Heimdallar. Pétur lék knattspyrnu í sigursælum yngri flokkum Vals og var annar af tveimur fyrstu gulldrengjum félagsins. Hann var formaður knattspyrnudeildar og síðar formaður Vals.
Pétur var sæmdur heiðursfélaganafnbót Vals.
Í 38 ár gegndi Pétur formennsku í sjálfseignarstofnunni Sólheimum, Grímsnesi og fór þar fyrir merkilegu uppbyggingarstarfi ásamt öflugu samstarfsfólki.
Þegar hægri umferð var tekin upp á Íslandi vorið 1968 gegndi Pétur stöðu framkvæmdastjóra þeirrar nefndar sem bar ábyrgð á verkefninu. Hann starfaði mikið að umferðaröryggismálum á þeim árum. Síðar var Pétur framkvæmdastjóri Þróunarfélags miðborgar Reykjavíkur.
Pétur Sveinbjarnarson átti og rak um árabil veitingastaðinn Ask, Veitingamanninn og fleiri fyrirtæki í skyldri starfsemi.
Eftirlifandi synir Péturs eru Guðmundur Ármann og Eggert.