Andlát: Pétur Sveinbjarnarson

Pétur Sveinbjarnarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Pétur Svein­bjarnar­son, fyrrverandi formaður Sólheima ses. í Grímsnesi, lést að­farar­nótt Þor­láks­messu, 74 ára að aldri.

Pétur átti að baki langan feril á sviði við­skipta, opin­berra starfa og fé­lags­mála. Hann var virkur í starfi Sjálf­stæðis­flokksins í á­tatugi og gegndi m.a. stöðu formanns Heim­dallar. Pétur lék knatt­spyrnu í sigur­sælum yngri flokkum Vals og var annar af tveimur fyrstu gull­drengjum fé­lagsins. Hann var for­maður knatt­spyrnu­deildar og síðar for­maður Vals.
Pétur var sæmdur heiðurs­fé­laga­nafn­bót Vals.

Í 38 ár gegndi Pétur for­mennsku í sjálfs­eignar­stofnunni Sól­heimum, Gríms­nesi og fór þar fyrir merki­legu upp­byggingar­starfi á­samt öflugu sam­starfs­fólki.

Þegar hægri um­ferð var tekin upp á Ís­landi vorið 1968 gegndi Pétur stöðu fram­kvæmda­stjóra þeirrar nefndar sem bar á­byrgð á verk­efninu. Hann starfaði mikið að um­ferðar­öryggis­málum á þeim árum. Síðar var Pétur fram­kvæmda­stjóri Þróunar­fé­lags mið­borgar Reykja­víkur.

Pétur Svein­bjarnar­son átti og rak um ára­bil veitinga­staðinn Ask, Veitinga­manninn og fleiri fyrir­tæki í skyldri starf­semi.

Eftir­lifandi synir Péturs eru Guð­mundur Ár­mann og Eggert.

Fyrri greinSigríður ráðin verkefnastjóri stafrænnar þróunar
Næsta greinEngin flugeldasala í Laugardalnum