Séra Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup í Skálholti, andaðist á Landspítalanum í Reykjavík í morgun, 66 ára að aldri.
Eftirlifandi eiginkona hans er Arndís Jónsdóttir, skólastjóri. Þau eignuðust tvö börn, Stefaníu og Jón Magnús. Fóstursonur þeirra, Rúnar Kristjánsson, lést árið 2000.
Sigurður fæddist 30. maí 1944 í Hraungerði. Faðir hans var séra Sigurður Pálsson, sóknarprestur í Hraungerði og síðar á Selfossi og vígslubiskup Skálholtsstiftis. Móðir hans var Stefanía Gissurardóttir, húsfreyja.Sigurður varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1965 og lauk kandídatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1971. Hann nam einnig fiðluleik og kenndi um tíma á fiðlu. Sigurður lauk meistaraprófi í guðfræði frá Princeton Theological Seminary 1981.
Séra Sigurður var sóknarprestur á Selfossi 1971-1994 er hann tók við embætti vígslubiskups í Skálholtsstifti og gegndi því embætti þar til hann lést. Hann sinnti kennslustörfum um árabil og var stundakennari í kennimannlegri guðfræði við Guðfræðideild Háskóla Íslands 1983-84 og 1989.
Hann sat í stjórn Prestafélags Íslands og var formaður þess um tíma. Séra Sigurður sat í fjölmörgum nefndum og ráðum á vegum þjóðkirkjunnar, í helgisiðanefnd þjóðkirkjunnar um árabil og í kenningarnefnd frá árinu 1998. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var staðgengill biskups Íslands frá árinu 2003.
Séra Sigurður ritaði bókina Þorlákur helgi og samtíð hans sem kom út árið 1993. Hann ritaði og fjölda greina í Kirkjuritið, Morgunblaðið og héraðsblöð Sunnlendinga.
Séra Sigurður Sigurðarson var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1994 og stórriddarakrossi á kristnihátíðarárinu 2000.