Andlát: Þórður Tómasson

Þórður Tómasson fyrir utan byggðasafnið í Skógum, árið 2011. sunnlenska.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Þórður Tóm­as­son safn­vörður í Skóg­um und­ir Eyja­fjöll­um er lát­inn, 100 ára að aldri. Hann lést á Heil­brigðis­stofn­un Suður­lands á Sel­fossi síðastliðinn fimmtu­dag, 27. janú­ar. Þórður var fædd­ur 28. apríl 1921, son­ur Tóm­as­ar Þórðar­son­ar, (1886-1976) og Krist­ín­ar Magnús­dótt­ur (1887-1975) bænda í Vallna­túni und­ir Vest­ur-Eyja­fjöll­um. Þórður, sem var var ann­ar í ald­urs­röð fjög­urra systkini, hóf um ferm­ing­ar­ald­ur að safna mun­um og minj­um í nærum­hverfi sín­um; verk­fær­um og öðrum grip­um úr gamla ís­lenska bænda­sam­fé­lag­inu sem þá var komið á und­an­hald.

Eft­ir ut­an­skóla­lest­ur lauk Þórður gagn­fræðaprófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík 1941. Sneri þá aft­ur til marg­vís­legra starfa á heima­slóð. Byggðasafnið í Skóg­um sett á lagg­irn­ar árið 1949, sama ár og starf­semi Héraðsskól­ans í Skóg­um hófst. Í nóv­em­ber um­rætt ár flutti Þórður muni þá sem hann hafði safnað heima í Vallna­túni að Skóg­um, en fyrsta sýn­ing nýs byggðasafns var í kjall­ara nýrr­ar skóla­bygg­ing­ar og var opnuð 1. des­em­ber sama ár.

Þórður var safn­vörður Byggðasafns­ins í Skóg­um frá stofn­un þess og starfaði þar vel fram á 21. öld­ina. Var líf og sál­in í safn­inu og starfi þar, leiðsagði gest­um sem komu víða frá í ver­öld­inni en Þórður var sjálf­menntaður mælt­ur á mörg tungu­mál.

Fyrsta safna­húsið í Skóg­um var reist 1954-55 sem fljótt varð of lítið. Í dag eru hús Skóga­safns alls fimmtán. Í safn­inu eru tug­ir þúsunda muna, sem sýna vel breyt­ing­ar á verk­hátt­um á Íslandi á 20. öld­inni og þróun ís­lensk­ar menn­ing­ar yfir lang­an tíma. Á síðari ára­tug­um hef­ur í Skóg­um verið lögð sér­stök áhersla á að safna og sýna minj­ar sem tengj­ast sam­göngu­sögu Íslands, svo sem vega­gerð, fjar­skipt­um og fleiru slíku.

Þórður­var org­an­isti við Ásólfs­skála­kirkju og síðar við Ey­vind­ar­hóla­kirkju og sat í sókn­ar­nefnd­um þar. Hann var full­trúi í sýslu­nefnd Rangár­valla­sýslu 1979-89 auk þess að gegna ýms­um trúnaðar­störf­um í heima­héraði sínu. Eft­ir Þórð liggja mörg rit um þjóðfræði og sagn­fræði í bók­um, ýms­um tíma­rit­um og blöðum. Þá safnaði hann ýms­um frá­sögn­um um ís­lenska þjóðhætti m.a. fyr­ir Þjóðminja­safn Íslands.

Á ald­araf­mæli sínu sendi hann frá sér bók­ina Stóra­borg, staður mann­lífs og menn­ing­ar. Þar seg­ir frá Stóru­borg und­ir Eyja­fjöll­um, en í bæj­ar­hóln­um þar sem brimaði á bjargaði Þórður fjölda merkra og fornra muna. Dróg af þei­málykt­an­ir um mann­líf, bú­skap­ar­hætti og menn­ing­ar­sögu.

Árið 1962 stofnuðu Þórður og Jón R. Hjálm­ars­son sam­an tíma­ritið Goðastein og sáu um út­gáfu þess til árs­ins 1986. Á þjóðhátíðardag­inn, 17. júní 1997, var Þórður gerður að heiðurs­doktor við heim­speki­deild Há­skóla Íslands og árið 2001 var hann út­nefnd­ur heiðurs­borg­ari Aust­ur-Eyja­fjalla­hrepps. Hlaut jafn­framt ýms­ar aðrar viður­kenn­ing­ar

Þórður var ókvænt­ur og barn­laus, en hélt lengi heim­ili í Skóg­um með Guðrúnu syst­ur sinni og fjöl­skyldu henn­ar. Útför Þórðar fer fram í kyr­rey, að eig­in ósk. Jarðsett verður í kirkju­g­arðinum í Ásólfs­skála und­ir Vest­ur-Eyja­fjöll­um.

Morgunblaðið greinir frá þessu

Fyrri greinPáll býður sig fram í 2.-3. sæti
Næsta greinStrákarnir okkar stórkostlegir í lokaleiknum