Andlát: Unnur Stefánsdóttir

Unnur Stefánsdóttir frá Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi lést á líknardeild Landspítalans í gær eftir stutta legu.

Unnur fæddist hinn 18. janúar 1951 í Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi. Foreldrar hennar voru Guðfinna Guðmundsdóttir húsmóðir og Stefán Jasonarson bóndi.

Unnur lauk húsmæðraskólaprófi frá Húsmæðraskóla Suðurlands 1970 og útskrifaðist sem fóstra frá Fósturskóla Íslands fjórum árum síðar. Í millitíðinni lagði hún stund á almennt íþróttanám við Idrætshøjskolen í Sønderborg í Danmörku. Hún lauk framhaldsnámi í stjórnun og uppeldisfræði frá Fósturskóla Íslands árið 1984.

Unnur kom víða á starfsferli sínum. Hún var aðstoðarkennari við Húsmæðraskólann á Laugarvatni 1971-1972, fóstra og forstöðumaður leikskóla í Reykjavík 1974-1975 og umsjónarfóstra í Kópavogi 1979-1982. Þá starfaði hún við umferðarfræðslu barna, sem dagvistarfulltrúi Ríkisspítalanna og verkefnisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Unnur kenndi hagnýta uppeldisfræði við Fósturskóla Íslands á árunum 1991-1995 áður en hún varð leikskólastjóri heilsuleikskólans Skólatraðar og síðar Urðarhóls. Unnur þróaði heilsustefnuna sem sautján leikskólar á landinu starfa eftir. Undanfarin ár var hún framkvæmdastjóri Skóla ehf., sem rekur fimm leikskólanna.

Unnur starfaði um árabil innan Framsóknarflokksins og var meðal annars formaður Freyju, félags framsóknarkvenna í Kópavogi, og varaformaður og síðar formaður Landssambands framsóknarkvenna. Á árunum 1985-2002 átti hún sæti í miðstjórn, landsstjórn og framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins og var gjaldkeri flokksins um árabil. Unnur var varaþingmaður 1987-1995 og tók sæti á Alþingi sem slíkur.

Unnur var afrekskona í íþróttum og keppti í frjálsum íþróttum frá tólf ára aldri fyrir ungmennafélagið Samhygð og HSK. Hún var landsliðskona í 400 og 800 metra hlaupi. Hún sat í framkvæmdastjórn Íþrótta- og ólympíusambands Íslands um nokkurra ára skeið og gegndi sömuleiðis formennsku í nefnd um umbætur í kvennaíþróttum á vegum ÍSÍ.

Eftirlifandi eiginmaður Unnar er Hákon Sigurgrímsson. Börn þeirra eru Finnur hljóðtæknimaður, Grímur kvikmyndaleikstjóri og Harpa Dís, menntaskólanemi og rithöfundur.

Fyrri greinNubia komin fram
Næsta greinSelfosskonur komnar í úrslit