Andrés Ingi Jónsson, frá Hjarðarbóli í Ölfusi, tók í gær sæti á Alþingi í forföllum Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Andrés er þriðji varaþingmaður VG í Reykjavíkurkjördæmi norður en fyrri tveir varaþingmenn flokksins í kjördæminu sáu sér ekki fært að taka við sætinu.
Andrés Ingi er með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum frá University of Sussex og BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands. Hann hefur meðal annars áður starfað sem aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur, þegar hún var umhverfisráðherra og sem aðstoðarmaður Álfheiðar Ingadóttur, er hún var heilbrigðisráðherra. Hann hefur einnig starfað sem verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.