Andri Helgason, sjúkraþjálfari í Hveragerði, gefur kost á sér í 3. sætið á framboðslista Framsóknar í Hveragerðisbæ, fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Andri segir í tilkynningu að hann hafi tekið þessa ákvörðun eftir mikla hvatningu frá vinum, ættingjum og fólki á förnum vegi í Hveragerði.
„Í Hveragerði hef ég skotið föstum rótum eftir að hafa stofnað fyrirtæki hér í bæ árið 2018 og svo flutt hingað með konu og dætrum árið 2019. Það hefur verið tekið einstaklega vel á móti okkur og sem fyrirtækjaeigandi og foreldri hefur áhugi minn á bæjarmálum aukist jafnt og þétt. Ég hef mikinn áhuga á að gefa af mér til baka í blómabæinn okkar og halda áfram að vinna að áframhaldandi uppbyggingu,“ segir Andri og bætir við að áhugi hans liggi mikið í atvinnu- íþrótta- og velferðarmálum.
„Ég er sjúkraþjálfari að mennt og hef starfað sem slíkur síðan 2014. Ég vann á einkastofu í Reykjavík þangað til ég opnaði mitt fyrirtæki hér 2018. Þá hef ég einnig sinnt sjúkraþjálfun bæði félagsliða og landsliða í ýmsum íþróttum svo sem sundi, körfubolta, íshokkí, fótbolta og handbolta. Þá hef ég einnig sinnt nefndarstörfum hjá Félagi sjúkraþjálfara frá 2014-2018. Ég er metnaðarfullur og sinni því sem ég tek mér fyrir hendur af heilum hug. Ég er spenntur að bjóða fram krafta mína til að takast á við þau verkefni sem standa frammi fyrir okkur hér í Hveragerði á komandi árum,“ segir Andri ennfremur.