Prestar í Suðurprófastdæmi vilja ekki að byggð verði eftirlíking af miðaldadómkirkju í Skálholti. Þeir vilja fremur byggja upp starfsemi þar í tengslum við trúarlíf, fræðslu og menningu fremur en ferðamannastað.
Þetta kom fram á fundi þeirra á Hellu nýverið. Þann fund sótti þorri presta á Suðurlandi, og vígslubiskupinn í Skálholti.
Séra Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur í Fellsmúla segir einhug hafa verið meðal fundarmanna um ályktunina. „Þetta eru okkar ályktun um mál sem er í umræðunni, þarna erum við að lýsa okkar skoðun og hugmyndum,“ sagði sr. Halldóra í samtali við Sunnlenska.
Í ályktuninni segir meðal annars að Skálholt sé fjölsóttur ferðamannastaður og ferðamenn sýni því áhuga sem þar er nú þegar, vegna sögu og helgi staðarins.
„Fundurinn telur að það sé frekar í anda Skálholts í sögu og samtíð að efla þá þætti í starfseminni í Skálholti sem lúta að trúarlífi, fræðslu og menningu í landinu en byggja staðinn fyrst og fremst upp sem ferðamannastað. Á þessu ári er þess minnst að 50 ár eru liðin frá vígslu Skálholtskirkju og frá því er ríkisstjórn Íslands afhenti þjóðkirkjunni Skálholtsland allt með gögnum og gæðum. Að baki þeirri ákvörðun lá vilji til að fullkomna þá endurreisn Skálholts sem hafin var með sameinuðu átaki innanlands sem utan. Fundurinn telur Skálholt hafa ómetanlegu hlutverki að genga í grunnþjónustu Þjóðkirkjunnar við kristni og trúarlíf í landinu,“ segir í ályktun sunnlensku prestanna.