Við suðvesturenda Langasjávar er risin látlaus áningaraðstaða fyrir ferðamenn. Verkefnið er stutt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Salernishúsi og viðveruhúsi fyrir landvörð, sem einnig þjónar sem móttaka fyrir ferðamenn, hefur verið komið fyrir á staðnum en vatnsveita verður ekki tengd fyrr en næsta vor. Þá verður ennfremur lokið við seinni áfanga verksins; smíðaður trépallur umhverfis húsin, reistur skjólveggur úr grjóti og gengið frá tjaldsvæði og bílastæði.
Húsin eru klædd með lerki sem gránar fallega með aldrinum og falla vel inn í umhverfið við Langasjó.
Áningaraðstaðan er teiknuð af Birgi Teitssyni, Arkís arkitektum, en RR Tréverk á Kirkjubæjarklaustri sá um smíði, uppsetningu og frágang húsanna. Vatnsborun Árna Kópssonar sá um borun kaldavatnsholu sem er tengd beint inn í geymslurými hússins.