Anna Margrét Franklínsdóttir á Selfossi, fimmti elsti Íslendingurinn og elsti Sunnlendingurinn, er 105 ára í dag, fædd 15. júní 1910 að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu.
Foreldrar hennar voru Franklín Þórðarson og Andrea Jónsdóttir, sem varð 97 ára. Systkinin voru þrettán. Auk Önnu eru þrjár systur á lífi á Siglufirði, Nanna 99 ára, Margrét 93 ára og Guðborg 91 árs. Níu af þrettán systkinum náðu níutíu ára aldri. Ein frænkan varð 107 ára og bróðir hennar 100 ára.
Anna flutti úr Strandasýslunni í Hrútafjörð og þaðan til Reykjavíkur 1972. Hún vann hjá Sjóklæðagerðinni i Reykjavík þar til hún var rúmlega 91 árs en hefur síðan átt heima á Selfossi. Sonur Önnu er Magnús Þorbergsson trésmíðameistari á Selfossi.
Anna Margrét býr á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi og þar var haldin afmælisveisla í dag þar sem vinir og vandamenn fögnuðu áfanganum með henni.