Anna María Gunnarsdóttir hefur verið fengin til liðs við teymi um innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Verkefni hennar er að styðja sérstaklega við innleiðingu laganna í skólakerfinu.
Anna María, sem er frá Laugarási í Biskupstungum, er framhaldsskólakennari með B.A.-gráðu í íslensku og M.Ed.-gráðu frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún einnig diplóma í uppeldis- og kennslufræðum og hefur lokið 60 ECTS-eininga námi á meistarastigi í íslenskum fræðum. Anna María var varaformaður Kennarasambands Íslands árin 2018–2022. Áður starfaði Anna María sem framhaldsskólakennari, fyrst í Fjölbrautaskóla Suðurlands en lengst af við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og sem sérfræðingur hjá Kennarasambandinu.