Stokkseyringurinn Anna Pálmey Hjartardóttir varð 103 ára síðastliðinn þriðjudag, þann 29. janúar. Hún er nú búsett í Kópavogi.
Anna Pálmey er fædd að Vatni í Haukadal í Dalasýslu 29. janúar 1910 og uppalin í Borgarfirði. Tvítug lærði hún sauma í Reykjavík og fluttist í Árnessýslu árið 1933 og bjó lengst af á Stokkseyri.
Þar tók hún virkan þátt í félagsmálum og var um skeið formaður Kvenfélags Stokkseyrar. Eiginmaður hennar var Frímann Sigurðsson, yfirfangavörður á Litla-Hrauni. Frímann lést árið 1992.
Anna Pálmey dvelur nú á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi. Hún er við þokkalega heilsu og segir að sér líði vel, að því er fram kemur á Facebooksíðunni Langlífi.