Annað smit á Heilsustofnun – 55 í sóttkví

Heilsustofnun NFLÍ í Hveragerði. Ljósmynd/Aðsend

Starfsemi Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði er komin af stað aftur eftir tveggja daga meðferðahlé á meðan unnið var að smitrakningu.

Smit greindist hjá skjólstæðingi á Heilsustofnun síðastliðinn þriðjudag og var því gert hlé á öllu endurhæfingarstarfi. Smitrakningin gekk vel og endurhæfingarstarf hófst aftur í gær, fimmtudag, en 52 eru í sóttkví vegna smitsins.

Í morgun barst svo tilkynning frá smitrakningateymi ríkislögreglustjóra um annað smit sem er óskylt hinu fyrra. Unnið er að smitrakningu en ekki er talin þörf á að gera hlé á starfseminni. Um er að ræða einstakling sem kom til dvalar síðastliðinn mánudag en fór af staðnum daginn eftir. Þrír starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví vegna þessa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilsustofnun.

Þetta eru fyrstu smitin sem greinst hafa inni á Heilsustofnun frá því kórónuveirufaraldurinn hófst.

Fyrri greinRúmlega helmingur mætti í bólusetningu
Næsta greinBjarki og Gunnhildur taka við veitinga- og gistiþjónustu í Skálholti