Annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar boðinn út

Vegagerðin hefur boðið út annan áfanga í breikkun Suðurlandsvegar milli Biskupstungnabrautar og Hveragerðis. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Lengd útboðskaflans er 7,1 km. Um er að ræða nýjan veg að hluta og endurgerð núverandi vegar að hluta. Einnig þarf að gera ný vegamót við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri og hringtorg við Biskupstungnabraut.

Inni í útboðinu er einnig nýbygging Ölfusvegar, breyting Þórustaðavegar og Biskupstungnabrautar, sem og gerð heimreiða. Hluti verksins er bygging fimm steyptra brúa og undirganga ásamt tveggja reiðganga úr stáli.

Einnig eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir og landmótun auk annarra þátta sem nauðsynlegir eru til að ljúka verkinu.

Tilboðum í verkið á að skila fyrir 3. mars næstkomandi og þessum áfanga breikkunarinnar á að vera að fullu lokið þann 29. september árið 2023.

Fyrri greinUndirbúningur miðhálendisþjóðgarðs fari fram í samvinnu við sveitarfélögin
Næsta greinGul viðvörun: Vatnavextir og krapaflóð