Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun á Suðurlandi og Suðausturlandi á miðvikudag vegna suðvestan storms.
Á Suðurlandi er appelsínugul viðvörun í gildi frá kl. 14 til 23 og á Suðausturlandi frá kl. 16 til kl. 03 aðfaranótt fimmtudags.
Búist er við suðvestan 23-30 m/sek og hviðum yfir 40 m/sek. Mikil rigning fylgir lægðinni og er útlit fyrir vatnavexti. Búast má við foktjóni og röskunum á samgöngum.
Aðfaranótt fimmtudags tekur önnur appelsínugul viðvörun við um land allt en Veðurstofan vinnur enn að því að setja henni tímaramma á milli landshluta.