Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Suðurland sem gildir frá klukkan 14 á mánudag, til klukkan 8 á þriðjudagsmorgun. Gul viðvörun er í gildi á milli kl. 11 og 14 á mánudag.
Það gengur í austan storm, 20-28 m/sek, en hvassast verður með ströndinni. Mesti vindhraðinn verður undir Eyjafjöllum, í Landeyjum og í Mýrdal. Veðurstofan segir hættu á foktjóni.
Einnig verður talsverð snjókoma eða slydda með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Í tilkynningu frá Vegagerðinni er fólk hvatt til að kynna sér veðurspár áður en lagt er af stað. Gera má ráð fyrir að komi til lokana á vegum.
Á Suðausturlandi gildir appelsínugula viðvörunin á milli kl. 18 á mánudag og 9 á þriðjudag. Gular viðvaranir eru í gildi bæði á undan og eftir þeirri appelsínugulu. Veðrið verður verst í V-Skaftafellssýslu austur að Öræfum en hægari vindur þar fyrir austan.