Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun sem gildir fyrir Suðausturland frá klukkan 7 á mánudagsmorgun, til klukkan 6 á þriðjudagsmorgun. Gert er ráð fyrir norðaustan ofsaveðri.
Vindhraðinn verður 23-30 m/sek og hvassast næst sjávarsíðunni. Líklegt er að vindhviður verði 45-50 m/sek og má búast við foktjóni. Ekkert ferðaveður verður á svæðinu.
Gul viðvörun tekur gildi á Suðausturlandi klukkan tíu í kvöld, þar sem hvassast verður í Öræfum og búast má við mjög öflugum vindhviðum. Gul viðvörun tekur einnig við af þeirri appelsínugulu, frá klukkan 6 á þriðjudagsmorgun til klukkan 23 á þriðjudagskvöld. Hvassast verður í Öræfum og varasamt ferðaveður.
Gul viðvörun er einnig í gildi á Suðurlandi frá klukkan 6 á mánudagsmorgun, til klukkan 9 á þriðjudagsmorgun. Hvassast verður undir Eyjafjöllum, vindhviður allt að 30 m/sek og varasamt að vera á ferðinni á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.