Appelsínugul viðvörun: Stórhríð og skafrenningur

Hjálparsveitin Tintron mannar lokunarpósta. Mynd úr safni. Ljósmynd/Tintron

Veðurstofan hefur uppfært veðurviðvörun dagsins á Suðurlandi í appelsínugula viðvörun sem gildir frá kl. 18 í kvöld til miðnættis.

Á þessum tíma verður austan stormur eða rok, 23-28 m/sek á Suðurlandi og vindhviður allt að 40 m/sek.

Í upphafi verður versta veðrið austantil á svæðinu, einkum undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum en vindstrengurinn færir sig svo vestur með suðurströndinni seinna í kvöld.

Gert er ráð fyrir stórhríð og skafrenningi og því eru víðtækar samgöngutruflanir líklegar, og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi.

Suðurstrandarvegur lokaður
Búið er að loka Suðurstrandarvegi vegna ófærðar og útlit er fyrir að loka þurfi fleiri vegum á Suðurlandi þar sem gert er ráð fyrir skafbyl í kvöld.

Fyrri greinÉg verð yfirleitt ekkert mjög vandræðalegur
Næsta greinDramatískt fimmtudagskvöld í Gjánni