Nú er eitt ár liðið frá því að eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi. Gosið hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og stóð til 13. apríl.
Upphaflega bárust fregnir frá lögreglunni á Hvolsvelli um eldgos og tilheyrandi öskufall í eða við Eyjafjallajökul. Síðar kom í ljós að gosið var hraungos norðarlega í Fimmvörðuhálsi, rétt austan við Eyjafjallajökul.
Samkvæmt vefmyndavél RÚV byrjaði eldgosið í Eyjafjallajökli klukkan 23:28 þann 20. mars. Fyrsta tilkynning barst klukkan 23:58 frá Múlakoti og þá var TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunar, send af stað. Gosið hófst í um 0,5-1 km langri sprungu, norðarlega í Fimmvörðuhálsi. Hraunið myndaði 200 m háan foss er það rann niður í Hrunagil.
Þann 22. mars færðist gosið í aukana og mökkurinn varð að líkindum 8 km hár. Óljósar fregnir voru að því að gossprungan hefði stækkað en svo reyndist ekki. Það var í raun hraun að renna yfir ís og snjó sem olli því að gosmökkurinn stækkaði til muna.
Gríðarleg umferð ferðafólks var um Fimmvörðuháls þá daga sem fært var á hálsinn vegna veðurs.
Þann 31. mars opnaðist ný gossprunga um 200 m norðan við upphaflegu sprunguna. Við það minnkaði virknin í eldri sprungunni til muna og um viku síðar var virknin orðin að engu.
Gosinu lauk þann 13. apríl. Strax daginn eftir hófst eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls.
Gígarnir á Fimmvörðuhálsi fengu í júní 2010 nöfnin Magni og Móði og hraunið sem rann úr þeim fékk nafnið Goðahraun.