Árið 2012 verður kvatt með brennum og flugeldasýningum á öllu Suðurlandi síðdegis og að kvöldi Gamlársdags.
Áramótabrenna og flugeldasýning verða á bökkum Skaftár á Kirkjubæjarklaustri, neðan við verslunina Kjarval, kl. 21. Í Vík í Mýrdal verður brenna kl. 21 og á meðan á henni stendur fíra Víkverjar upp í glæsilegri flugeldasýningu.
Áramótabrenna verður á Hvolsvelli og verður kveikt í bálkestinum kl. 18 og á Hellu verður brennan kl. 17 á Gaddstaðaflötum. Blysför hefst frá bankanum kl. 16:30.
Áramótabrenna verður á Flúðum klukkan 20:30. Verður hún í landi Sunnuhlíðar við tjaldsvæðið og á Borg í Grímsnesi verður kveikt í brennu kl. 20:30 og hefst flugeldasýningin kl. 21.
Selfyssingar munu kveikja í brennu á nýjum stað, á gámasvæðinu á Víkurheiði í Sandvíkurhreppi, kl. 16:30.
Á Eyrarbakka er brennan kl. 20 við Hafnarbrú og á Stokkseyri á sama tíma við Arnhólma.
Kl. 20:30 verður áramótabrenna í Þverbrekkum í Hveragerði og flugeldasýning í umsjón HSSH og í Þorlákshöfn verður brenna og flugeldasýning kl. 17 á svæðinu fyrir ofan Skötubót.