Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í vikunni að áfrýja til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli Gámaþjónustunnar gegn Árborg um sorphirðuútboð í sveitarfélaginu.
Árborg var á dögunum dæmt til að greiða Gámaþjónustunni rúmar 24 milljónir króna í skaðabætur og málskostnað vegna ákvörðunar sveitarfélagsins að hafna öllum tilboðum í sorpútboði árið 2011.
Tillaga um áfrýjunina var borin undir atkvæði í bæjarstjórn í vikunni og samþykkt með 6 atkvæðum bæjarfulltrúa D- og Æ-lista, bæjarfulltrúar B- og S-lista sátu hjá. Bæjarstjórn felur Torfa Sigurðssyni hrl. að undirbúa áfrýjunina.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls á bæjarstjórnarfundinum og gerði grein fyrir hjásetu bæjarfulltrúa B- og S-lista með ályktun. Í ályktuninni kemur fram að Eggert, Arna Ír Gunnarsdóttir og Helgi Haraldsson, sem öll sitja enn í bæjarstjórn, hafi á sínum tíma mótmælt eindregið þeirri ákvörðun meirihluta D-lista að hafna innsendum tilboðum í sorphirðuna og vildu að gengið yrði til samninga við lægstbjóðanda.
„Á þeim tíma sem þessi undarlega ákvörðun meirihluta D-lista var tekin, var ekkert tillit tekið til né hlustað á málflutning minnihluta bæjarstjórnar. Það hlýtur að teljast eðlilegt að þau sem hófu þessa vegferð klári sig af því ein og óstudd. Það er einlæg von okkar að þetta mál fái farsælan endi og skaði ekki veikburða stöðu bæjarsjóðs. Í ljósi aðdraganda og tilurðar þessa máls sitjum við undirrituð hjá við afgreiðslu þessa máls,“ segir í ályktun B- og S-lista.