Þreifingar eru í gangi um að Sveitarfélagið Árborg taki menningarsalinn í Hótel Selfoss upp í ógreidd fasteignagjöld af salnum.
Félagið FF800 sem á hótelbygginguna og þar með salinn setti sig í samband við bæjaryfirvöld með hugmyndina, sem er á frumstigi, að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins.
Adolf Guðmundsson, stjórnarformaður FF800, segir málið tengjast fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins sem skuldar fasteignagjöld af salnum til nokkurra ára.
Fasteignagjöldin af þeim hluta hótelsins sem hýsir salinn nema tæpum tveimur milljónum króna á mánuði og er lætur því nærri að skuldin sé um 70-80 milljónir króna.
„Við hofum kastað hugmyndum á milli okkar hvernig þetta verður útfært,“ segir Adolf en hvorki hann eða Ásta vildu gefa upp hvað fælist í drögum að samkomulagi sem sveitarfélagið hefur sett fram.
Heimildir Sunnlenska segja að annars vegar hafi verið rætt um að sveitarfélagið fái salinn eins og hann er, og hins vegar að fasteignafélagið ráðist í framkvæmdir á salnum og afhendi hann nær fullbúinn.
Menningarsalurinn hefur staðið fokheldur í rúman aldarfjórðung.Hann er um 1300 fermetrar að stærð og þar er gert ráð fyrir allt að 350 gestum í sæti.
Efstu tvær hæðirnar í turni Hótelsins eru í eigu annars félags sem ráðgerði að koma þar upp skrifstofuhúsnæði. Það pláss stendur einnig autt og ónotað.