Samtök sunnlenskra sveitarfélaga kalla þessa dagana eftir afstöðu sveitarfélaganna á Suðurlandi um stofnun farsældarráðs á Suðurlandi, þar sem unnið verði að samhæfingu með farsæld barna að leiðarljósi.
Stjórn SASS telur mikilvægt að unnið sé þvert á landshlutann í þessum málaflokki og í erindi SASS til sveitarfélaganna kemur fram að fjármunir fylgja samningnum og að hann feli ekki í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir sveitarfélögin, heldur sé fyrst og fremst yfirlýsing um að þau vilji eiga með sér samstarf um útfærslu á ráðinu.
Erindi SASS var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Árborgar í gær, þar sem Árborg afþakkaði þátttöku í verkefninu.
„Í ljósi þess að Sveitarfélagið Árborg hefur verið frumkvöðlasveitarfélag við innleiðingu á farsældarlögum og er með skýra stefnu í uppbyggingu þjónustu við börn og barnafjölskyldur telur bæjarráð vænlegast að svæðisbundið farsældarráð sé innan Árborgar og afþakkar því þátttöku,“ segir í bókun bæjarráðs.