Árborg fær aðeins 23 milljónir króna vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja

Bæjarráð Árborgar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að menntamálaráðuneytið hafi ekki séð sér fært að verða við beiðni um framlag vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja vegna landsmóta UMFÍ, eins og hefð hefur verið fyrir árum saman.

Árborg hefur fengið 23 milljónir alls frá ráðuneytinu en sóttist eftir 60 milljónum og hefur bæjarráð ekki séð nein rök frá ráðuneytinu vegna þessa.

Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, sagði í samtali við sunnlenska.is að meðaltal úthlutana ríkisins árin 2004, 2007 og 2009 sé 53,3 milljónir og er framlag til Árborgar minna en helmingur þess. „Og er þá ekki tekið tillit til verðlagsbreytinga sem gera samanburðinn enn verri,“ segir Eyþór.

Bæjarráð óskar eftir því að ákvörðun ráðuneytisins verði endurskoðuð og bendir á að sveitarfélagið stóð að tveimur landsmótum en ekki bara einu, bæði Unglingalandsmóti 2012 og Landsmóti 2013.

„Við erum meðvituð um fjárskort ríkisins en við hefðum talið eðlilegt að þetta væri á bilinu 45-50 milljónir til að vera í takt við síðustu úthlutanir. Sveitarfélagið hefur lagt í miklar fjárfestingar og nema þær um hálfum milljarði króna. Við vonum að þetta verði leiðrétt svo sannmælis sé gætt,“ sagði Eyþór ennfremur.

Fyrri greinÖruggt hjá Þórsurum í Borgarnesi
Næsta greinThelma Björk til liðs við Selfoss