Sveitarfélagið Árborg fékk frest til 15. október til að skila Eftirlitsnefnd með fjármálaum sveitarfélaga hugmyndum og tillögum að því hvernig brugðist verður við erfiðri skuldastöðu Árborgar.
Upphaflega átti að skila þeim til nefndarinnar í lok september.
Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Svf. Árborgar sagði í samtali við Sunnlenska að verið væri að fara yfir forsendur fjárhagsáætlunar sem muni fylgja í bréfinu til nefndarinnar. Ásta segir að stíf vinna standi yfir hjá stjórnendum og starfsfólki sveitarfélagins við að meta kostnað málaflokka. Ljóst er að herða þarf ólina á ýmsum sviðum, nánast verður frost í fjárfestingum og hagræðingar munu fela í sér breytingar á starfsskipulagi.
Ekki er ljóst hvort gripið verði til hækkunar gjalda en útsvarsálag er í toppi. Ekki er búið að ákveða hvort hækkun verði á fasteignagjaldi en tekjur sveitarfélagsins munu lækka um 70 milljónir króna á næsta ári vegna lækkunar á verðmæti fasteigna.
Ætlað er að draga þurfi úr framlögum til byggðasamlaga, mögulega verður skorið niður framlag til Atvinnuþróunarfélags Suðurlands en boðað verður til aukafundar um málið í byrjun desember. „Sveitarfélög sem eru að draga úr grunnþjónustu sinni verða líka að horfa í þá átt,“ segir Ásta. Hún á fastlega von á að standast tímamörk Eftirlitsnefndar eftir viku.