Sveitarfélagið Árborg var eitt fjögurra sveitarfélaga sem fékk styrk úr Þróunarsjóði samræmdar móttöku flóttafólks.
Árborg hlaut styrk vegna fræðslu handa starfsfólki grunnskóla og frístunda í sveitarfélaginu til þess að undirbúa þau betur til að taka á móti fjölbreyttum nemendahópum og fjölskyldum þeirra, og hvernig efla megi upplýsingaflæði og tryggja að upplýsingar komist til skila til foreldra flóttabarna og annarra samstarfsstofnana.
„Það er mjög mikilvægt að við tökum vel á móti því fólki sem hingað leitar skjóls og stór hluti af því er að auðvelda þeim að kynnast og aðlagast samfélaginu okkar. Það er erfitt að koma í nýjan heimshluta þar sem allt er framandi og öðruvísi en fólk á að venjast. Þau frábæru verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni eiga það öll sameiginleg að auðvelda aðlögun fólks og auka fræðslu til þess um mikilvæg málefni, og þannig auðvelda þeim að skapa sér nýtt líf hér á landi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Þau sveitarfélög sem eru með samning við félags- og vinnumálaráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks geta sótt um styrki í sjóðinn. Samband íslenskra sveitarfélaga og Fjölmenningarsetur höfðu umsjón með úthlutuninni. Alls fengu fjögur sveitarfélög styrk úr sjóðnum.